Saturday, 27 August 2011

Montage af viðbrögðum við SKJALDBÖKUNNI

Stefán Hrafn Hagalín

“Var á einleik á Norðurpólnum í kvöld. Ekki með Grími, sem aldrei gefur'ann, heldur stóra bróanum hans. // "Skjaldbakan" hans Smára er lúmskt margbrotið leikverk í einfaldleika sínum og ófeiminni lífsgleði og segir stóra sögu gegnum lítinn atburð, en sýnir samt framar öðru hvað Smári er fjári flinkur, fyndinn og sniðugur leikari! Og takk fyrir að vígja mig...”

Jóel Sæmundsson

“Var líka á þessari skemmtilegu og fallegu sýningu hjá Smára mínum. Ég myndi mæla með henni, en þetta var held ég síðasta sýningin en ef þið ýtið á hann að hafa eina í viðbót þá kannski gerir hann þá og þá mun ég sko mæla með henni!!!

Hafðu eina í viðbót fyrir hitt fólkið sem komst ekki”


Eymundur Sveinn Leifsson

“Fór á leikhús í gær á einleik...nánar tiltekið á Skjaldbökuna. Er yfirleitt ekki mikið fyrir leikhús en þetta var alveg stórskemmtilegt...ég skemmti mér til dæmis mun betur en á Nei Ráðherra. Þarna voru brandararnir ekki fyrirsjáanlegir og sagan mjög íslensk, sveitó og hress.”


Egill Björnsson

“Ef þetta er betra en Nei ráðherra, þá er þetta “a must see.””

Anna Margrét Káradóttir

“Skellti mér á Skjaldbökuna í kvöld á Norðurpólnum ( þessi setning hljómar furðulega, ég geri mér grein fyrir því ) ! Frábær sýning alveg hreint, virkilega vel skrifuð og hnyttin sýning!”

Kári Viðarsson

“Sá SKJALDBÖKUNA í kvöld og get staðfest að hún er f-in þrjú. Fyndin, Falleg og Funheit.”

Selma Mar

“Alveg glimrandi fín sýning.”

Jón Jónsson

"Skjaldbakan - snilld"


Salbjörg Engilbertsdóttir

"Skjaldbakan frábær"


Bergur Þór Ingólfsson

"Mér fannst gaman. Smári er hörku gamanleikari."


Björk Jóhannsdóttir

"Ég var líka mjög ánægð með sýninguna......og þeir sem ekki vissu neitt um skjaldbökuna fræddust af sýningunni. Persónulegt og fallegt :) "


Karl Ágúst Úlfsson

"Sérstaklega hafði ég gaman af samanburði við líf/aðstæður veiðimannsins og nútíma/hversdagsmannsins og trúverðugleika þess sem oft hefur sagt ótrúlegar sögur en birtist svo allt í einu á yfirborði veruleikans á svo lýgilegan hátt að við neyðumst til að taka hann trúanlegan"

Rebakka Ragnars Atladóttir

"Fór á frábæra leiksýningu í kvöld, Skjaldbökuna, með hinum hæfileikaríka Smára Gunnarssyni. Frábært og frábært... :) Takk fyrir mig"

Silja Aðalsteinsdóttir

“Smári hefur fallega sviðsframkomu og hreyfingar, ágæta rödd og góða eftirhermuhæfileika – sem kemur sér vel þegar einn maður þarf að leika margar persónur. Hann kann líka prýðilega að segja sögu… Það er óskandi að hann fái fljótlega tækifæri til að sýna enn betur hvað í honum býr.

Arnar S. Jónsson

" Náði að upplifa miklar tillfinningasveiflur; mikil gleði, spenna, eftirvænting og eftirsjá. Smári fer yfir ótrúlega vítt svið í leikritinu. Ég var hrifnastur af líkamsbeitingu hans og mjög sterkri tilfinningu gagnvart verkinu… Sýningin er fyrst og fremst falleg"

Wednesday, 3 August 2011

Um Skjaldbökuna
SKJALDBAKAN
er gamansamur einleikur leikinn af Smára Gunnarssyni og saminn í samstarfi við leikstjórann Árna Grétar Jóhannsson. Verkið er byggt á þeim stóratburði þegar risaskjaldbaka kom að landi á Hólmavík árið 1963. Skjaldbakan var 2 metrar og 360kg og þótti mikið sæskrímsli, en þetta var í fyrsta sinn sem vitað er um að slíkt dýr hafi komið að landi á Íslandi. Skjaldbakan er nú í eigu Náttúrugripasafns Íslands.

Verkið fjallar um ungann mann sem kynnist veiðimanninum og þótt þeir fari í sitt hvora áttina þá eru á milli þeirra órjúfanleg tengsl. Veiðimaðurinn tekur loforð af hinum unga manni að passa upp á bát fyrir sig þegar hann flytur frá þorpinu. Þegar báturinn dúkkar upp aftur mörgum árum seinna og minningar um veiðimanninn og skjaldbökuna sem hann dró að landi streyma fram þá koma fram leyndir draumar hins unga manns um veiðimennsku, sjómennsku og almenna karlmennsku. Allt kristallast þetta auðvitað í einu merkasta afreki veiðimannsins, skjaldböku ævintýrinu og ferðalagi hennar til Reykjavíkur.

SKJALDBAKAN hefur verið sýnd við frábærar undirtektir á Hólmavík og á einleikjahátíðinni Act Alone á Ísafirði.

Sýningartími 55 mínútur.

"Sýningin er fyrst og fremst falleg." Arnar Snæberg Jónsson - strandir.is

Leikari: Smári Gunnarsson
Leikstjóri: Árni Grétar Jóhannsson
Höfundar: Smári Gunnarsson og Árni Grétar Jóhannsson

Norðurpóllinn Kort
Mið. 24. ágúst kl. 21.00
Fimt. 25. ágúst kl. 21.00
Leikarinn er þessa dagana með skyrtuna fráhneppta því hann er að leggja lokahönd á samningaviðræður um rými í Reykjavík fyrir SKJALDBÖKUNA.

Þess á milli skipuleggur hann ferð til Ísafjarðar á Act Alone hátíðina þar sem SKJALDBAKAN verður sýnd í Edinborgarhúsinu föstudagskvöldið 12. Ágúst Kl: 22.00

Gott að hafa gott að gera!

Wednesday, 13 July 2011

Fyrsta gagnrýnin komin í hús


Gagnrýnin á strandir.is


Í gær skrapp ég í leikhús í Bragganum á Hólmavík. Var aldrei þessu vant í hlutverki hreinræktaðs leikhúsgests sem hafði ekki séð snefil af sýningunni áður, þó svo að hún hafi verið í æfingu á Hólmavík undanfarnar vikur. Það fannst mér skrítið, en um leið dálítið skemmtilegt.

Leikarinn er Smári Gunnarsson og leikstjóri Árni Grétar Jóhannsson, báðir útskrifaðir úr Rose Buford í London; þeim þekkta sviðslistaskóla. Smári er Hólmvíkingur að uppruna og um þennan uppruna snýst verkið að nokkru leyti. Sögusviðið er að stórum hluta Hólmavík 1963 þegar Norðmaðurinn og erkiHólmvíkingurinn Einar Hansen dró suðræna leðurskjaldböku á land á Hólmavík. Einstakur atburður á landsvísu. Þetta sögusvið blandast síðan upplifun Smára sjálfs gagnvart Einari sem bað hann um að passa fyrir sig árabátinn sinn þegar Smári var sex ára. Í stuttu máli sagt skemmti ég mér frábærlega í leikhúsinu í gær. Náði að upplifa miklar tillfinningasveiflur; mikil gleði, spenna, eftirvænting og eftirsjá.

Smári fer yfir ótrúlega vítt svið í leikritinu. Í raun má segja að sviðið sem hann standi á í miðjum gamla Bragganum sé tilfinningasvið mannsins og hann leikur í öllu rýminu (líka í bókstaflegri merkingu). Smári sýnir svo ekki verður um villst að hann er lærður leikari; hér er engin áhugamennska á ferðinni. Sviðsmyndin er skemmtilega leyst og lýsing með ágætum. Sviðsmunir fáir og einfaldir og þjónuðu sýningunni vel. Á sýningunni er talsvert af áhrifahljóðum sem virka geysilega vel með leiknum, en hljómgæði hefðu á einum eða tveimur stöðum mátt vera betri. Allar tæknilausnir virka mjög vel og það er gaman að Smári og Árni Grétar hafar gefið ungum og efnilegum tæknimönnum stórt og ábyrgðarmikið hlutverk í sýningunni. Þeir stóðu sig vel.

Ég ætla ekki að gefa of mikið uppi um leikritið sjálft. Þó verð ég að segja að mér fannst eitt flottasta atriðið þegar Smári fjallaði um sjómennskuna; hvað þarf að hafa til brunns að bera til að vera sjómaður og hvernig karlmennskan verpist í kringum þennan magnaða atvinnuveg. Þá hafði ég sérstaklega gaman af raunvísindakappanum og atriðið með hólmvísku blómarósunum var sérstaklega skemmtilegt. Æi, það er nógu að taka; of mörgu til að telja eitthvað eitt eða tvennt upp. Svo er leikritið líka fyndið án þess að gert sé grín að einhverjum. Það er kostur en oft hefur mér fundist þetta vera þunn lína til að dansa á. Smára hefur tekist það vel í samningu verksins.

Strákurinn er flottur leikari. Ég var hrifnastur af líkamsbeitingu hans og mjög sterkri tilfinningu gagnvart verkinu, Þá sýnir hann mikla virðingu gagnvart viðfangsefninu þó svo að fjörið sé oft á tíðum mikið. Langbestur er leikarinn þó þegar hann staldrar við og gefur leikritinu, persónunum og framvindu sögunnar smá rými til að anda. Þessi stuttu andartök eru svo vel tímasett og "rétt" að unun er á að horfa og finna. Í eitt skiptið, seint í leikritinu, klökknaði ég yfir vel útfærðri þögn í senu sem ég sá ekki betur en að snerist að einhverju leyti um samruna litla stráksins við gamla sjómanninn; líkamsbeiting Smára var á þann veg að í henni mátti sjá þessa tvo ólíku menn í einum kroppi. Magnað augnablik.

Það eina sem vantaði í Braggann í gær voru fleiri áhorfendur. Ég vil hvetja sem allra, allra, allra, allra flesta til að láta Skjaldbökuna ekki fram hjá sér fara - ekki vera hérinn í ævintýrinu. Allir sem tengingu hafa við Hólmavík munu hafa gaman af sýningunni, en allir hinir sem aldrei hafa heyrt um Einar Hansen og skjaldbökuævintýrið munu skemmta sér líka. Næstu tvær sýningar, SÍÐUSTU AUGLÝSTU SÝNINGARNAR Á HÓLMAVÍK, eru tvo næstu föstudaga kl. 20:00 Ekki missa af þessu verki. Gerðu það. Plís. Og takk, Smári minn. Sýningin þín er fyrst og fremst falleg. Takk fyrir það.


Arnar Snæberg Jónsson

Monday, 4 July 2011

Orðið á götunni

Jón Jónsson "Skjaldbakan - snilld"

Salbjörg Engilbertsdóttir "Skjaldbakan frábær"

Björk Jóhannsdóttir "Ég var líka mjög ánægð með sýninguna......og þeir sem ekki vissu neitt um skjaldbökuna fræddust af sýningunni. Persónulegt og fallegt :) "

SKJALDBAKAN - Fyndin og falleg
SKJALDBAKAN fær sína eigin götu á Hólmavík

SKJALDBAKAN hefur slegist í hóp með Hamlet og Othello eftir að gata á Hólmavík hefur fengið nafngiftina Skjaldbökuslóð.

Hamlet Street, Othello Gardens og Skjaldbökuslóð.


Ný götunöfn á Hólmavík - Jakobínutún og Skjaldbökuslóð

PDF Prenta Tölvupóstur
Image
Á hátíðarfundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í tilefni af Hamingjudögum voru samþykkt tvö ný götuheiti á Hólmavík. Annars vegar er nýtt nafn á götunni sem félagsheimilið, íþróttamiðstöðin og tjaldstæðið standa við en hér hér eftir heitir hún Jakobínutún. Þetta götuheiti er til heiðurs Jakobínu Thorarensen sem lengi bjó á Hólmavík, litrík kona og sköruleg. Hún og fyrri maður hennar létu reisa Steinhúsið fyrir sléttum 100 árum og var það fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík. Þar rak Jakobína verslun áratugum saman, allt til 1962. Þar sem félagsheimilið stendur var áður Jakobínugirðing og Jakobínutún sem kennt var við hana, en landið var gefið undir félagsheimili 1984.

Í öðru lagi snýst tillagan um breytt nafn á götunni sem liggur með sjávarsíðunni, á uppfyllingunni milli smábátabryggju og hafskipabryggju. Þessi gata heitir nú Skjaldbökuslóð. Nafnið er til minningar um þann einstaka atburð þegar Einar Hansen og Sigurður sonur hans drógu suðræna risaskjaldböku að landi á Hólmavík, þarna í fjörunni, haustið 1963. Jafnframt er götunafnið Skjaldbökuslóð valið til heiðurs Einari Hansen sjálfum og til að minna á margvísleg afrek hans og magnaðar sögur af þeim.

Frumsýning glæsileg í alla staði

Það er óhætt að segja að frumsýning hafi gengið þrusuvel. Leikarinn og leikstjórinn fylgdu barninu sínu, Skjaldbökunni, í eldskírnina fyrir framan 60 manns í Bragganum á Hólmavík.

Það var ekki annað að sjá og heyra en að gestir hefðu skemmt sér vel og áhorfendur stóðu og klöppuðu linnulaust. Leikarinn var leystur út með gjöfum: Blómvöndur frá leikfélaginu, mósaík Skjaldbaka frá foreldrunum og Skjaldbökusúpa frá Jóni Jónssyni, sú síðasta af 13 ára gamalli uppskrift frá því síðast var minnst Skjaldbökuævintýrisins á Hólmavík með upplýsingasýningu á Hólmavík.

Leikstjórinn fékk hvítvín, eins og svo oft áður, og hann fagnaði vel fyrir hönd okkar beggja... en leikarinn fór í háttinn snemma enda 2. sýning strax morguninn eftir.